8. apríl 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
Fáein orð um geðveiki

Í slitlaginu blandast blóð og tjara. Senn verður
takmarkinu náð. Ég er syndlaus maður, laus við
hvatir. Dökk krómmaskínan æðir áfram einsog
hraðlest inní eyðimörkina. Ég sé himininn
opnast í sporöskjulaga auga og reglulega varpar
það fram slitróttum myndum úr lífi mínu. Þetta
blikandi auga er það eina sem lýsir upp rauða-
myrkrið.


Þau giftust á fimmtudegi í mars á ferðalagi um
Gíbralta. Næsta miðvikudag voru þau stödd í
hótelherbergi á sjöundu hæð Hilton hótelsins í
Amsterdam þar sem heimspressan hélt að þau
hygðust gera það fyrir framan myndavélarnar
í þágu friðar. Á bilinu fimmtíu til sextíu blaða-
menn höfðu ferðast frá London til þess að
vitna um þennan atburð, berja kappann augum
með þessari undarlegu konu frá Japan sem hann
hafði verið að gera hosur sínar grænar fyrir.
   Loks hafði hann gengið af göflunum.


Sökum þess hversu mikla athygli brúðkaupið
vakti, hefði allteins verið hægt að nota tækifærið
til að koma skilaboðum áleiðis. Mörgum árum
síðar viðurkenndi hann að þær pólitísku hug-
sjónir sem hann hafði að leiðarljósi hefðu í
vissum skilningi verið barnalegar. Hvernig átti
að vera hægt að boða frið í heimi sem átti aðeins
ofbeldi?


Það hefur stundum komið fyrir mig að einhver
minnist á atvik eða samræðu sem ég get
ómögulega munað eftir. Þegar það gerist reyni
ég að láta ekkert uppi og þykist vera með á
nótunum. Ég hef velt því fyrir mér hvort rekja
megi slíka minnisbresti til geðveiki. Eitt dæmi
um þetta var fyrir mörgum árum þegar ég
hringdi í vinkonu mína sem mig hafði lengi
langað til að sofa hjá og hún svaraði í símann
heldur önuglega.
   „Veistu, nú verður þetta að hætta!"
   „Verður hvað að hætta?"
   „Ég fíla bara ekkert að þú sért að hringja
hérna og spyrja hvort ég sé í nærbuxum eða
eitthvað þvíumlíkt – einsog núna í morgun.
Ha."
   Auðvitað baðst ég strax afsökunar og
bar fyrir mig eitthvert grínið. En ég verð að viður-
kenna að það er heldur óþægilegt að halda
uppi samræðum við manneskju sem gengur út
frá því að maður hafi upplifað það sama og hún
er að tala um. Ég hef aldrei kunnað við að spyrja
heimskulegra spurninga og því frekar bitið á
jaxlinn og vonast til að umfjöllunarefnið útskýri
sig sjálft.


Fortíðin er einsog eitraður ávöxtur. Ramminn
utanum mynd af fjötruðum manni. Augun
lýsa af örvilnun. Hann heldur hönd upp að
kinn, horfir í gegnum þann sem horfir á móti.
Dauð orð á vörum. Dimmur bakgrunnur.
Næstum ekkert sem minnir á umheiminn.
Eftirkeimur eiturs.


Það mætti segja um mig að ég sé gefinn fyrir að
velta mér uppúr hlutum. Fyrrverandi ástkonur
hafa kvartað yfir því að ég geti ekki látið neitt
ágreiningsmál eiga sig. Að ég þurfi að brjóta allt
til mergjar. Það hefur nefnilega aldrei verið neitt
vandamál fyrir mig að komast í samband við
góða kvenkosti. Hins vegar hefur eitt og annað
valdið því að sambönd mín rofna að lokum.
Dæmi: Ég var í tygjum við konu sem ég kynntist
í Kvöldskólanum um árið. Hún var yndislega
afslöppuð týpa. Við vorum búin að vera saman
nokkra mánuði og höfðum það mjög gott þang-
að til hún spurði mig einn daginn: „Hvað er það
í mínu útliti sem þér líkar?" Ég sagði henni að
mér þætti hún fallegust í myrkri.


Það er einmitt þetta með drykkjuna. Er ekki
alltaf talað um að undir áhrifum áfengis sýni
maður sitt rétta andlit? Ef svo er þá er ég vissu-
lega geðveikur, því það getur verið tilviljunar-
kennt hvar ég enda þegar ég verð ölvaður.
Eftir villta nótt á djamminu hef ég vaknað á
eldhúsborði í einhverri ókunnri blokk, gist
fangageymslur lögreglunnar og margt þar á
milli. Það væri allavega ekki fjarri lagi að ætla
geðveikina og drykkjuna sitt hvora hlið á sömu
mynt. Því annað getur framkallað hitt.
   Jafnvel þótt talað sé um að geðveiki geti verið
ættgengur sjúkdómur hlýtur samt margt að ýta
honum af stað, ekki veit ég til þess að nein tilfelli
hafi fundist í minni ætt hingað til.


Þegar ég var unglingur tíndum við strákarnir
sveppi í lok sumars á golfvellinum í bænum
þar sem ég bjó. Síðan lágum við um nætur í
sandgryfjunum og fylgdumst með geimskipum
á himninum eða flissuðum yfir því þegar jörðin
hreyfðist. Við sögðum foreldrum okkar að við
værum að safna golfkúlum og það væri langbest
að tína þær þegar enginn væri á vellinum og
gaman að tjalda í leiðinni.
   Ég hef reynt að móta lífsskoðanir mínar
út frá eigin reynslu. Þegar eitthvað gengur úr
skorðum dreg ég lærdóm af því og leitast við
að efla hugann. Það er enginn of góður til þess
að skoða sjálfan sig ofan í kjölinn. Af hverjum
er jesúmyndin og hvernig líkar mér við eigin
spegilmynd? Spegillinn brotnar.
Úr ljóðabókinni Mótmæli með þátttöku (2004) - brot -


Ljóð eftir Kristian Guttesen

Ljóðin þín (2014-07-25)
Fáein orð um geðveiki (2004-10-23)
Við lok einmánaðar (2004-07-30)
In memoriam (2004-10-27)
Ferðalok
eða Gömul saga
(2005-01-22)
orðagyðjan [2] (2006-05-22)
orðagyðjan [1] (2007-08-17)
bónusljóð (2006-05-14)
Í formála minningargreinar um fjólu (2007-06-16)
blóð
Eftirmáli : síðustu ljóð
Inná almenningsklósetti að drýgja einhverjar ónáttúrulegar athafnir og þú situr í rólegheitunum en hún finnst myrt og vanhelguð (2006-08-25)
Urbanus, from urbs city (2006-10-04)
Tóm gröf innan í bók


[ Til baka í leit ]