21. september 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
De Profundis


Til Vizma Belsevica f. 1931 d. 2005


Ég fór líka að rótum lilja
og lagði við eyru
vildi heyra
vilja þeirra
og kærur.

Í fyrstu ekkert, ekki orð
ekki stuna, aðeins jörð
og höfug angan moldar

Lagðist allur á svörð
þrýsti höfði til foldar
og beið.

Var það sviti móður jarðar
eða sviti mín sjálfs?
inn í æðar mér rann
sætbeiskur safi trjánna
uns fyllti æðar til hálfs
við mitt blóð:

Höfuðið höfugt af fræflum
og frævum – og hugsun mín öll
jarðnesk og fresk:
trénaðar raddirnar
ruddust um hörund
inn og innar:

“þú hefur séð” sögðu þær
“regnboga ljóssins og vatnsins
á himinsins víða hveli”
hvíslkenndur raddblærinn
rótstæður – glær:
“þú hefur séð”, umluðu þær
sem sofandi væru
“með hálfrökum augum
litrófsins loftkennda anda
aðeins sem skugga
af gulnaðri mynd!
Sofnir þú lifandi í svörðinn
leysist þú upp meðal lilja
molnirðu og verðir að mold
hafnir þú anda – og holdi
af fúsum og frjálsum vilja
þá fyrst mun auga þitt opnast
þá fyrst mun hugur þinn sjá
að lífið í lofthjúpi jarðar
er lausung og hismið eitt:
aðeins gufa og reykur.
Regnbogi ykkar er tálsýn
sem társtokkin himinninn býr
í skini sólar-
En hérna í neðra hjá okkur
er fyllingin:
Rætur og mold


Ljóð eftir Hrafn Andrés Harðarson

Týnda ljóðið (2002-03-02)
Augu steina
Haust (2009-11-25)
De Profundis
Blængar blámans
Ekkert rugl þar


[ Til baka í leit ]