23. september 2021
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
Lofsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.
Íslenski þjóðsöngurinn Þjóðsöngur Íslendinga, lofsöngurinn Ó, guð vors lands, er upphaflega sálmur, ortur við sérstakt tækifæri, og mun hvorki höfundi ljóðs né lags hafa hugkvæmzt, að úr yrði þjóðsöngur, enda leið meira en mannsaldur, áður en svo varð. Árið 1874 voru talin 1000 ár liðin frá því, er Norðmaðurinn Ingólfur Arnarson nam fyrstur manna land á Íslandi. Voru það sumar hátíðahöld um gjörvallt land af þessu tilefni, en aðal-þjóðhátíðin fór fram á Þingvöllum og í Reykjavík. Fyrir þessa hátíð var lofsöngurinn ortur, sbr, orðin ?Íslands þúsund ár?, sem fyrir koma í öllum þremur erindum, og heitið á frumútgáfu kvæðis og lags (Rvík 1874) er: Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára. Skv. konungsúrskurði frá 8. sept. 1873 skyldi haldin opinber guðsþjónusta í öllum íslenzkum kirkjum til að minnast þúsund ára byggðar Íslands sumarið 1874, og átti biskupinn yfir Íslandi að kveða nánar á um messudag og ræðutexta. Sama haust lét biskupinn, dr. Pétur Pétursson, boð út ganga þess efnis, að messudagurinn yrði 2. ágúst og ræðutextinn 90. sálmur Davíðs, l.-4. og 12.-17. vers. Þessi ákvörðun um hátíðarmessu olli því, að þjóðsöngurinn íslenzki varð til, og textavalið réð kveikju hans. Um sama leyti og biskupsbréfið var birt, hélt í þriðju utanför sína (af ellefu alls) séra Matthías Jochumsson (1835-1920). Hann var sonur fátækra, barnmargra bóndahjóna og hafði því farið gamall í skóla, kostaður af fólki, sem hrifizt hafði af gáfum hans. Hann hafði lokið guðfræðiprófi í Reykjavík og gerzt klerkur í rýru brauði þar í grennd (í Móum á Kjalarnesi 1867), en sagt af sér prestskap þetta haust, 1873, er hann átti enn í hugarstríði eftir að hafa misst nýlega aðra konu sína, auk þess sem hann háði þá sem oft endranær framan af ævi innri trúarbaráttu. Á næstu árum gerðist hann ritstjóri Þjóðólfs (1874-80), tók síðan aftur við prestsþjónustu í mikils háttar prestaköllum (í Odda á Rangárvöllum til 1887, síðan á Akureyri) og gegndi þeim til aldamóta, er hann hlaut fyrstur Íslendinga skáldalaun frá Alþingi, sem hann naut tvo síðustu áratugi ævinnar. Matthías Jochumsson er eitthvert víðfeðmasta, andríkasta, mælskasta - afkastamesta og mistækasta stórskáld Íslendinga frá öllum tímum. Kunnastur er hann og langlífastur verður hann fyrir beztu frumort ljóð sín, snilldarlegar þýðingará ýmsum öndvegisverkum heimsbókmenntanna og margs konar fjörmiklar ritgerðir og bréf. Hann hefur öllum öðrum fremur hlotið tignarheitið ?þjóðskáld Íslendinga?. Hann er um fram allt lífsins og trúarinnar skáld, sem kemur m. a. fram í þjóðsöngnum - þótt ósanngjarnt væri í skáldsins garð að telja hann meðal allra fremstu ljóða hans. Kvæðið er ort í Bretlandi veturinn 1873-74, fyrsta erindið í Edinborg, en tvö síðari erindin í Lundúnum, og fannst Matthíasi sjálfum aldrei mikið til þeirra koma. Á þeim tíma var aðeins áratugur liðinn frá því, er hann hafði vakið athygli þjóðarinnar á skáldskap sínum, og enn leið áratugur, þar til út kom sérstök ljóðabók eftir hann. Höfundur lagsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1926), átti ólík örlög Matthíasi, var sonur eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, Þórðar Sveinbjörnssonar dómstjóra við landsyfirréttinn, og ól mestan aldur sinn erlendis. Hann var guðfræðingur, en gerði síðan fyrstur Íslendinga tónlistariðkan að ævistarfi sínu. Hann hafði lokið 5 ára tónlistarnámi í Kaupmannahöfn, Edinborg og Leipzig og var rétt setztur að sem hljómlistarkennari og píanóleikari í Edinborg, þegar Matthías kom þangað haustið 1873 og bjó þar hjá honum, því að þeir voru skólabræður, þótt aldursmunur væri 12 ár. Þegar Matthías hafði ort þarna upphafserindi lofsöngsins, sýndi hann það Svéinbirni og segir svo frá þessu í Söguköflum af sjálfum sér: ?Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim fyrir þjóðhátíðina.? - Sveinbjörn var síðan búsettur í Edinborg, nema hvað hann átti heima 8 síðustu æviárin í Winnipeg, Reykjavík og Kaupmannahöfn, þar sem hann lézt, sitjandi við píanó sitt. En allt frá því, er hann samdi lagið við ?Ó, guð vors lands?, 27 ára gamall, hélt hann áfram margs háttar tónsmíðum alla ævi, og eru þeirra á meðal ýmis ágæt lög við íslenzk ljóð, þótt lengstum væri hann í litlum tengslum við þjóð sína og yrði öllu fyrr kunnur sem tónskáld í dvalarlandi sínu en föðurlandi. Samt eru tónverk hans fremur samin í norrænum anda en engilsaxneskum. Og í fámennum flokki íslenzkra tónskálda er hann bæði meðal brautryðjenda og meðal þeirra, sem hæst ber. Lofsöngurinn virðist þó ekki hafa vakið sérstaka athygli, hvorki ljóð né lag, er hann var fluttur í fyrsta sinn af blönduðum kór við þrjár hátíðaguðsþjónustur í dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874. Þann dag voru og sungin í Reykjavík 7 minni, sem Matthias hafði ort að beiðni hátíðarnefndar, flest á einum .degi - svo hraðkvæður gat hann verið. En lofsöngurinn er meðal þess fáa, sem hann orti fyrir þjóðhátíðina af eigin hvötum. Til hátíðarinnar hafði drifið fólk hvaðanæva af Íslandi og tignarmenn komið frá ýmsum löndum Norðurálfu og frá Vesturheimi. Meðal þeirra var Kristján IX, og var það í fyrsta sinn, að konungur Íslands sótti það heim. Hann færði þjóðinni þá nýja stjórnarskrá, sem í voru fólgnar verulegar réttarbætur (löggjafarvald og fjárforræði að nokkru). Var þetta einn af áföngunum í endurheimt sjálfstæðisins (sem glataðist 1262-64), þar sem hinir næstu voru: heimastjórn (íslenzkur Íslandsráðherra, búsettur í Reykjavík) 1904, lsland fullvalda ríki í persónusambandi við Danmörku (konungur Danmerkur einnig konungur Íslands) 1. des. 1918 - og loks lýðveldi (með íslenzkum forseta) 17. júní 1944. Meðan fullveldið átti enn langt í land, var ekki um að ræða neinn þjóðsöng í venjulegum skilningi. En þegar Íslendingar sungu fyrir minni ættjarðarinnar, skipaði þar öndvegis-sessinn á 18. öld og fram yfir aldamót ?E1dgamla Ísafold? eftir Bjarna Thorarensen (1786-1841; ort í Kaupmannahöfn, sennil. 1808-09). En tvennt olli því, að það gat ekki orðið þjóðsöngur, þrátt fyrir almennar vinsældir. Annað var, að heimþrá fær þar útrás í snuprum í garð dvalarlandsins, nema í fyrsta og síðasta erindi, sem voru og oftast sungin. En einkum var hitt, að það var sungið undir lagi enska þjóðsöngsins (þótt upphaflega muni það samið við lag eftir Du Puy). Á síðasta fjórðungi 19. aldar var Ó, guð vors lands oft sungið opinberlega af söngfélögum. En það var ekki fyrr en á tímabilinu frá heimastjórn til fullveldis, milli 1904 og 1918, sem það ávann sér hefð sem þjóðsöngur. Við fullveldistökuna var það leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og hefur verið það ætíð síðan. - Íslenzka .ríkið varð eigandi höfundarréttar að laginu - sem áður hafði verið í eigu dansks útgáfufyrirtækis - árið 1948 og að ljóðinu 1949. Óneitanlega er samt annmarka á þessu að finna sem þjóðsöng. islendingar setja það að visu lítt fyrir sig, að kvæðið er fremur sálmur en ættjarðarljóð. En lagið nær yfir svo vítt tónsvið, að ekki er á færi alls þorra manna að syngja það. Almenningur grípur því oft til annarra ættjarðarljóða til að minnast lands síns, og er þar á síðustu áratugum einkum að nefna ?Íslandsvísur? (?Ég vil elska mitt land?) eftir Jón Trausta (skáldheiti Guðmundar Magnússonar, 1873-1918) undir lagi eftir séra Bjarna Þorsteinsson (1861-1938) og ?Ísland ögrum skorið?, erindi úr kvæði eftir Eggert Ólaísson (1726-68), lagið eftir Sigvalda Kaldalóns (1881-1946). En hvorki hafa þessi lög né önnur þokað ?Ó, guð vors lands? úr þjóðsöngssessi. Það hefur jafnvel hlotið þeim mun meiri helgi sem því hefur síður verið slitið út hversdagslega. Menn bera lotningu fyrir háleitum skáldskap kvæðisins ? einkum fyrsta erindis, sem oftast er sungið eitt saman ? og hið hátíðlega og hrífandi lag er Íslendingum hjartfólgið. Formáli viðhafnarútgáfu íslenska forsætisráðuneytisins 1957 © Ríkisstjórn Íslands


Ljóð eftir Matthías Jochumsson

Bjargið alda (2001-12-23)
Volaða land (2002-01-06)
Íslensk tunga (2002-02-17)
Minni kvenna (2002-04-25)
Börnin frá Hvammkoti (2002-06-09)
Lofsöngur (2002-06-17)
Hvað boðar nýárs blessuð sól? (2003-01-01)
Jólin 1891
Á jólum (2002-12-23)
Ég fel í forsjá þína (2003-01-07)
Ó, faðir, gjör mig lítið ljós (2004-03-10)
Eggert Ólafsson (2003-05-30)
Lífsstríð og lífsfró (2003-06-13)
Minn friður (2003-04-04)
Fögur er foldin (2003-12-24)


[ Til baka í leit ]