Norðurljósin lýsa tröllum
lyftir brúnum Krýs við haf.
Herdís rís úr fanna fjöllum
fálát tekur systraköllum.
Mennina dreymdi meðan ég svaf.
Í myrkri var Strandakirkja
hætt er skáldið djúpa að yrkja.
Dauðinn er það sem guð þeim gaf.
Blámi dauðans breiðist yfir
brýnist vörin sköflumi af.
Andlit strengt í augun rifir
örskil milli þess er lifir.
Heyrist bæn og hljóðlátt skraf.
Er það hér sem draumar deyja
er Hel við stríðið heygja.
Hver stendur hér í dyrastaf ?
Í rökkri alda með reisn í anda
reis upp Íslands kalda skör.
Hátt yfir sólir og sanda
sá hann til ókunnra stranda.
Forlögum hlýti sérhvör.
Á himni lýsir af degi.
Hver stund er vegur að vegi
í veraldar straumþungu för.
Kistufáninn kveðju litar,
Hvítbláinn, mjallhvítur og blár.
Yfir fálki hringi hnitar
og hinsta ljóð í skýin ritar.
Daggarblik dropi eða tár.
Dey ég og deyja bræður
vakir einn sá er ræður.
Skaparinn um aldir og ár.
|