30. mars 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Vængjaþytur vorsins eftir Ásdísi Jóhannsdóttur


Ævisaga í ljóðum.


Í blóma lífsins deyr kona með sviplegum hætti í útlöndum. Þetta var Ásdís Jóhannsdóttir, 26 ára háskólanemi í efnafræði, árið er 1959, staður Darmstadt í Þýskalandi.
Fjörutíu og þremur árum síðar gefur Félag ljóðaunnenda á Austurlandi út ljóð Ásdísar, sem hún orti fyrst og fremst fyrir sjálfa sig, eins og segir í eftirmála. Bókinni Vængjaþyt vorsins er skipt í þrjá kafla, æskuljóð, kvæði úr Menntaskólanum á Akureyri og ljóð ort í Þýskalandi síðustu fjögur æviárin.
Vængjaþytur vorsins er brotakennd ævisaga þessarar viðkvæmu ljóð- elsku stúlku sem strax á barnsaldri yrkir hefðbundið um lífsangistina og ástina. Ljóð hennar endurspegla miklar tilfinninga- sveiflur, innsæi og þroska - eða eins og segir í dagbókarbroti sem hún skrifar aðeins 15 ára gömul ?
Eins er með ástina og hatrið, að það er heill hringur á milli, en þó aðeins örstutt bil. (Bls. 16)
Sextán ára yrkir Ásdís þessa ljúfu stöku:
Léttist skapið, léttist sporið, lifna af svefni Íslands dætur. Æska, þú átt eins og vorið, unaðsbjartar, hlýjar nætur. (Bls. 17)
En unglingurinn yrkir líka:
... mér er sama um allt, því að allt er tál, ég er örmagna af þreytu á líkama og sál. (Bls. 17)
Fossinn minn er eitt fallegasta æskukvæði Ásdísar með ljóðrænni náttúrumynd að austan og upphafslínunum:
Dýrð sé þér vornótt sem draumana elur og dýpkar hjartans þrá ...
Erótík, æskuástir og kerskni einkenna nokkur kvæði sem Ásdís orti þegar hún stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri ? og þar reynir hún sig á fornum kveðskaparháttum. Þar er lítil perla sem heitir Gullnir blossar, hringhenda með skemmtilegri klifun:
Gullnir blossar, glampa um nótt, gullnar fossa veigar, gullin hossar gnoðin drótt sem gullna kossa teygar
Lýsigullið og vetrarþokan er yfirskrift síðasta og drýgsta kafla bókarinnar ? þeirra ljóða sem sterkust eru og ærlegust - ort á námsárunum í Darmstadt. Þau tjá heimþrá, trega og á stundum mikla örvæntingu og vanlíðan eins og í ljóðinu Skál dauðans og ort er 1957. Frá sama ári er líka ljóðið Blóð mitt er sem bylgjan.
... Og blóð mitt er sem bylgjan sem brotnar klettum á. Og öllu sem ég elska ég eitthvað hef að tjá. Mín sál er full af söngvum, mín sál er full af þrá. Mig vantar aðeins orðin sem ylnum formið ljá.
Örvænting er líka í ljóðinu Gefðu mér hljóminn.
... Gerðu mig stærri og sterkari en fyrr, stormaðu seglin, þá hefi ég byr.
En svo birtir til aftur og í Lofsöng til lífsins sem ort er 1958 er vonar- stjarnan skær:
Mig langar lofsöng að yrkja til lífsins sem mig ól því nú á ég heiðríkju hugans og hjarta sem aldrei kól. Því lífið er eilífur leikur og lífið er eilíft og sterkt. Ég lifi í lífinu miðju og lífið er kraftaverk
Það er forvitnilegt fyrir nútíma ljóðaunnanda að sjá tilraunir Ásdísar með formið, því hún lætur hefðina binda sig töluvert og reynir sig á rómönsum, ljóðahætti, sléttuböndum og hringhendum svo eitthvað sé nefnt. Hún er þannig forn í sinni tíð, því að á þessum árum var búið að bylta forminu. En hún yrkir líka óhefðbundið í einu síðasta ljóði sínu sem lýkur á orðunum ... ég er maðurinn sem missti drauminn. Gef mér hann aftur. Ásdís á tiltölulega létt með formið og stundum bregður fyrir skemmtilegri myndhugsun, en yrkisefnið er fyrst og fremst hennar innra líf, tilfinningar líðandi stundar eða minningarbrot. Að því leyti er lítið um óvænt sjónarhorn, fremur nokkra innhverfu og tilfinningalega útrás.
Að mörgu leyti er bókin Vængjaþytur vorsins forvitnileg kvennasöguleg heimild. Hún er gluggi inn í sálarlíf ungrar fjölhæfrar konu sem lagði upp í lífið í árdaga lýðveldisins og voru allir vegir færir vegna góðrar greindar. Hún valdi sér vettvang raunvísinda, sem teljast verður óvanalegt á þessum tíma, en bjó yfir mikilli tjáningarþörf og geðríki sem leitaði stöðugt útrásar. Það skilar sér vel í ljóðunum hversu sterka nærveru hún hefur haft og eins að hún hefur átt afar viðkvæman streng í sálinni. Bókin er líka heimild um formtilraunir og tíðaranda ? hér birtist okkur menntakona úr fortíðinni með ríka skáldæð, en dæmi- gerða kvenlega hógværð ? jafnvel bælingu fyrir því sem er henni dýrast.
Ég velti því fyrir mér hvort Ásdís hefði viljað að þessi ljóð kæmu fyrir almenningssjónir ? því mörg ljóðanna eru miklu fremur skrifuð sem tilraun til að koma formi á hugsun en til að ljá öðrum vængi. Ljóða- unnendur á Austurlandi eiga engu að síður þökk skilið fyrir að forða ljóðunum frá gleymsku ? því þau vekja til umhugsunar um gildi skáld- skaparins og að hver einasta manneskja ? óháð tíma og rúmi - getur tjáð hin dýpstu sannindi þegar hún er ærleg gagnvart sjálfri sér. Ég hefði viljað heyra Ásdísi Jóhannsdóttur syngja. Bókin er 63 bls. og útgefandi er Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Sigrún Björnsdóttir, 2002.