22. júlí 2018
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Meira en mynd og grunur eftir Þorstein frá Hamri


Að lesa ljóðabók eftir Þorstein frá Hamri er ekki ólíkt því að leita að lykli í útskornum kistli úr fjarlægu landi þar sem leysa þarf hverja fjölina frá hver annarri ? og í réttri röð ? til að geta opnað innsta hólfið. Þorsteinn er oft torráðinn og forn ? jafnvel með óræðar vísanir í söguna, en líka launkíminn með óvænt sjónarhorn á mannlífið. En hann er aldrei léttvægur eða merkingarsnauður, enda tungutakið alltaf kjarnmikið og kröftugt.


Bókin Meira en mynd og grunur mun vera 16. ljóðabók Þorsteins og geymir 41 ljóð. Í ljóðinu Stefjamóðirin gefur höfundur tóninn ? er hann ávarpar skáldskapargyðjuna og dregur upp andstæður hins kaldrana- lega raunveruleika og einmanaleikans og kvikunnar í ljóðinu:
Ég sá þig koma; en svo reyndist það ofskynjun einber: slíkt var kafið og kófið en ósk má það vel hafa verið sem skildi eftir sig orðspor á hjarni, svo nöktu hjarni í morgunmund (bls.8)
Stefjaborgin skelfur líka í Ofviðrinu (bls. 48) og heitt brim fellur að verðandi þagnarklettum. Þannig er skáldskapurinn og ljóðlistin alltaf undirliggjandi þema í bókinni. En manneskjan er líka mesta undrið í skáldskap Þorsteins, þroski hennar og breyskleiki og hann sjálfur flóknasta viðfangsefnið.
Í fyrstu ljóðunum lítur Þorsteinn til baka ? til bernskunnar og æskuáranna eins og í ljóðunum Bernska og Milli vita - og hann er sífellt að skoða sig og þroska sinn sem skáld. Hér er hann kannski óþarflega sjálfsgagnrýninn:
... Er hugsanlegt að ég hafi í bernskum draumi ljóðað skaplegar, skár en skuggarnir gegnumlýstir, raktir til rótar gerðu mér síðar, svonefndum fulltíða manni kleift að kveða ... (bls. 15)
Áleitin hugsun og eftirsjá er líka í fyrsta ljóðinu Brot:
... að leiða hug að því höggi sem ákvörðun manns um eyðingu, frávísun vitrana, dreyminna dægra mun ljósta sálu hans síðar ? ... (bls. 7)
Gömul skip er önnur mynd af skáldi ?sem beitir í vindinn og rifjar upp rastir? (bls. 44) og í ljóðinu Andvökumenn (bls. 37) hyggur skáldið að ?braglínum dægranna?. Orðin, ljóðæskan, vörður og vegmeyjar eru við- fangsefni Þorsteins og ljóðin eru tímapælingar og ævispeglar. Ljóðkynni er eitt besta ljóð bókarinnar og þaðan er titillinn kominn:
Þú finnur aldrei tón, þeirri tíð við hæfi. Allt kom nær, varð meira en mynd og grunur: Líf, á göngu; þú manst hverja spurn, hvern spöl ... Hann dylst í því sjálfu sem fram fór: Orð tók orði! Og síðan mörg systurleg, trygg spor. (bls. 18)
Það er unun að lesa bókina Meira en mynd og grunur. Þorsteinn frá Hamri er þó ekki auðveldur og mörg ljóðin krefjast nokkurrar skoðunar án þess að niðurstaðan sé alltaf ljós svo sem í ljóðinu Ávarpsorð (bls. 9). En hann er og verður eitt af okkar allra bestu ljóðskáldum - örlátur á sjálfan sig og orðin ? gjafir sem ber að geyma vel og leita í aftur og aftur. Bókin er 56 bls. og útgefandi er Mál og menning, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Sigrún Björnsdóttir, 2002.