22. júlí 2018
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Heimsendapestir eftir Eirík Örn Norðdahl


Stríðið á bl(j)óðvellinum.


Sú ágæta sjálfumgleði sem lýsir af káputexta Hauks Más Helgasonar(sem vel að merkja er ekki á kápu) þeirra vúlgöru Heimsendapesta sem hér skal lítillega vikið að og bréfi Eiríks Arnars Norðdahl höfundi þeirra sömu pesta (að ég hygg) til höfundar káputextans er ekki laust við að sá er hér skrifar fyllist nokkurri samlíðan með þeim. Samlíðanin stafar ekki síst af því að mér virðist að nú hafi skáld á Íslandi loks náð tökum á lífsháska þeim sem ?póstmodernískir skrípleikjahöfundar? og nútíma forsjárhyggjubókmenntamenn hafa marg lýst eftir.
Undir liggur því ljóðhefðin öll og sá vandi sem fylgir því að vera skáld, hvað er því eðlilegra en að hin skelfilega haika sé látin falla á ljóðmálinu fyrir eigin hendi, þegar hún lítur yfir blóðugan ljóðvöllinn:
Síðust féll haikan sjálf á hnén, rak upp stríðskvein, lyfti sveðjunni hátt yfir höfði sér, og rak sig í gegn. (?og orðið var Clint bls. 15)
Upp rís svo nýr heimur og fagur í Heimsendapestum að stríða við lífsháskann. Bókin því mjög lofandi um ágæta framtíðarmöguleika ljóðsins og íslenskan skáldveruleika. Eiríkur Örn segist ætla að nauðga lesendum sínum í augntóftirnar, þar sem hann viðurkenni ekki ?póstmóderníska skrípaleiki? (bls 7). Hygg þó að með ágætum yfirlýsingum sínum af ætlunarverki sínu og tilgangi svali hann fyrst og fremst röflþörf og sjálfhverfu póstmódernískrar hugmyndafræði. Snemma var mér kennt að skáld skyldu yrkja, en láta röflarana um röflið, þess vegna læt ég staðar numið að fjalla frekar um meintan tilgang höfundar Heimsendapestanna, enda vita skáld tíðast lítið um sitt ætlunarverk þó að göfugum tilgangi megi lýsa í áhrifamiklum kenningasmíðum. Heimsendapestum skiptir Eiríkur Örn upp í þrjár lotur, en lota getur haft nokkrar ólíkar merkingar eftir samhengi hverju sinni. Ein er sú að framkvæma eitthvað án þess að draga andann og hugnast mér sú merking framar öðrum, hvar í annarri lotu Heimsendapesta er að finna ljóðið Andstuttur og byggir á bernskuminningu um móðuruppfræðslu. Þar í er þetta:
?Hvað er andstuttur?? spurði ég. ?Það er þegar maður andar of hratt, vinur.? ?Hvað er anda? spurði ég. ?Það er svona:? hún dró djúpt að sér andann. Ég hermdi. Hvumsa. ?Það anda allir,? sagði hún. ?Ef maður hættir að anda deyr maður.? Í tuttugu ár hef ég haldið því fyrir sjálfan mig að ég dró ekki andann fyrr en þriggja ára. (Andstuttur bls. 32 ? 33)
Þannig er ein birtingarmynd ballar skáldsins í augntóftum lesandans; að teyga að sér andann/lífið sem fær merkingu þegar orðið er sagt, en um leið opinberast ofannefndur undirliggjandi háski, því merkingunni heldur skáldið fyrir sig næstu tuttugu árin. Það gæti talist löng lota tuttugu ár og tímabært að komi út á bók. Eiríki Erni er ekkert heilagt í kveðskap sínum og fer honum vel háðið og niðurrifið, klámið og níðið, slurpið og slammið og honum ber að þakka fyrir að hafa lagt af stað með sína Heimsendapest. ?Fjandakornið hafi það, ég er lagður af stað. Andskotinn hafi það.? bls. 8) eins og hann segir í áðurnefndu ávarpi til HMH. En undir lok bókar segir:
Ég er orðinn svo vanur að fara að mér finnst ég varla hafa verið nokkurstaðar lengur. (Maður ríður vini sínum bls. 57)
Lesandi því í nokkru uppnámi hvort, eða hvaða ferð hafi verið farin, hann fengið böllinn í augntóftirnar eða í annan stað. Engu að síður snilldar taktar í mörgu hjá höfundi og vert að gefa honum svigrúm til frekari ljóðferðalaga. Útgefandi er Nýhil, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Benedikt Gestsson, 2003.