1. apríl 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Meira en mynd og grunur eftir Þorstein frá Hamri


Falleg og djúp marglaga abstrakt ljóð.


Hér hefur Þorsteinn frá Hamri skrifað einstaklega fallega og djúpa ljóðabók. Það á svo sem ekki að koma á óvart: eftir hann liggja 19 ljóðabækur útgefnar á 44 árum, auk annarra verka, og hefur hann margoft í fyrri bókum látið sjást vel í hógværa snilli sína. Línan "Ljóðið ratar til sinna" er gott dæmi um hógværð hans sem hefur náð að snúast upp í goðsögn. Reyndar er ljóðið í lífinu honum oft hugleikið í þessari bók:
Að þræða hugfólgnar ljóðbjartar leiðir, hyggja að kynlegum brestum í braglínu dægranna, þiggja í náttstað mátt sinn og megin af tungli sem til vor um stund glottir í rofi, slær gliti yfir þúsundir þúfna við hrímfölan veginn ... Andvökumenn, bls. 37
Þorsteinn er ekki margra orða maður. Ljóð hans eru nánast undantekningalaust mjög klippt og skorin, laus við óþarfa orð, útskýringar og krúsídúllur. Þetta veldur því stundum að erfitt er að skilja hvað hann er að fara. Þessi torskildari ljóð ná þó vel að standa fyrir sínu ? geti maður á annað borð sætt sig við skilningsleysið! ? því þau ná alltaf að innihalda fallegan hljóm og stemmningar. Þetta skilst manni best með því að lesa ljóð Þorsteins upphátt fyrir sjálfan sig. Þá veltur skýrar út úr þeim hinn fallegi, tæri hljómur, eins og má vel finna og skynja í eftirfarandi ljóði:
Þú finnur aldrei tón, þeirri tíð við hæfi. Allt kom nær, varð meira en mynd og grunur: líf, á göngu; þú manst hverja spurn, hvern spöl ... Hann dylst í því sjálfu sem fram fór: orð tók orði! Og síðan mörg systurleg, trygg spor. Ljóðkynni, bls. 18
Þetta ljóð má hæglega flokka sem eitt þeirra bestu í bókinni. Formið knappt, lítið sagt: aðeins það sem hreinlega verður að segja. Í bókinni Meira en mynd og grunur veltir Þorsteinn frá Hamri fram ýmsum minnum: karma lífsins er honum hugleikið, ýmiskonar ljós, skáldagyðjur, ljóðið í lífinu, æðruleysi gagnvart elli og dauða. Hann hefur mikið og gott vald á málinu og notar það eins og pensil til að mála margralaga abstrakt ljóð sín. Þessa bók er hægt að lesa aftur og aftur og rekast sífellt á nýjan ferskleika. Bókin er 56 bls. og útgefandi er Mál og menning, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Davíð A. Stefánsson, 2003.