3. apríl 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Hvar sem ég verð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur


Sérstök einlægni og hlýja.


Nýjasta ljóðabók Ingibjargar Haraldsdóttur, Hvar sem ég verð, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin á dögunum og hefur verið lofuð mjög af gagnrýnendum og lesendum. Væntingar við lestur slíkrar bókar eru því miklar og oft er hætt við að lesandi verði fyrir vonbrigðum, eins og dæmi sanna.

Bókin skiptist í sex hluta. Fyrsti hlutinn hefst á Aldamótaljóði, þar sem hin miklu tímamót eru afhjúpuð sem ósköp hverdagslegur atburður. Það gerist ekkert stórkostlegt við aldamót:

Klukkan tifar
jörðin snýst
og fólkið er eitthvað að bardúsa

Enn sem fyrr

Í framhaldinu skyggnist ljóðmælandi aftur í tímann og rifjar upp minningar frá öldinni sem leið.

Annar hlutinn hefst í janúar og lýkur á aðventunni. Hann er því einskonar dagatal, þar sem stemning hvers árstíma er bundin í ljóð:

Fráleitt að eiga sér draum
í febrúar

fjúka um strætin
frá sér numin
í febrúar

- fráleitt


(Febrúar, bls. 22)

Í þriðja hluta færist sjónarhornið út fyrir landsteinana og ljóðmælandi stillir upp svipmyndum frá útlöndum.

Fjórði hlutinn fjallar um það að skrifa. Um skáldið og tengsl þess við sjálft sig, verk sín og tungumálið. Þar er m.a. að finna Ljóð í nafnhætti, þar sem hver lína hefst á sögn í nafnhætti.

Í fimmta hluta tekur sígilt yrkisefni við, sem ásamt ástinni virðist óþrjótandi ljóðauppspretta - dauðinn. Hér ríkir ótti og vonleysi andspænis yrkisefninu. Myrkrið er algert og hvergi virðist nokkur glæta. Þó kallast ljóðin í þessum hluta nokkuð á við upphafsljóð bókarinnar sem stendur eitt og sér, ljóðið til Nínu Bjarkar Árnadóttur. Þar glittir þó í vonina og sólin tekur jafnvel að skína.

Sjötti og síðasti hlutinn ber titil bókarinnar - Hvar sem ég verð. Þar sekkur ljóðmælandinn sér bókstaflega í vangaveltur um fyrirbærið ljóð og tungumálið á afar myndrænan hátt.

Í heild er bókin geysivel skrifuð. Ljóðin einkennast af sérstakri einlægni og hlýju, sem veitir lesandanum nálægð við ljóðmælandann og samkennd, þrátt fyrir þann drunga sem ræður ríkjum undir lok bókarinnar. Bókin stóðst þannig allar mínar væntingar - og gott betur.

Bókin er 76 bls. og útgefandi er Mál og menning, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Guðmundur Pálsson, 2003.