19. ágúst 2018
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Ígull eftir Kristian Guttesen


Of almenn yrkisefni


Ígull heitir ný ljóðabók frá ljóðskáldinu Kristian Guttesen. „Eins og Lennon forðum eftir fimm ára þögn / þegar bjallan rauf kyrrðina kveð ég mér hljóðs” Fyrsta bók höfundar frá því 1998 (að undanskildu Annó, sem var úrval fyrri ljóða (reyndar bara úr tveimur bókum, það best ég veit) og endurskoðaðrar útgáfu á Skuggaljóðum, frá 1998).

Bókin byrjar á gamansamri tilvitnun í þemasöngvara Draugabanana, Ray Parker jr. „If there’s something strange/ in your neighbourhood/  / who you gonna call?” Og þá hringir maður víst í draugabanana. En ef Kristian er að reyna að reka út illa anda með bók sinni, þá fór það fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Varð ekki var við draugagang. En það er alls ekki nauðsynlegt að taka svona alvarlega, ekki einu sinni víst það sé tilgangurinn.

Bókinni er skipt í þrjá þætti og byrjar hver þeirra á tilvitnun. (Bono og Muhamed Ali) Ljóðin eru flest haganlega samansett, fallegar myndir eru reyndar stundum full klisjulegar, en í heildina þá er ljóst að Kristiani heldur sæmilega á pennanum, og bregður honum af færni á blaðsíðurnar. Hitt er frekar að skorti að Kristian hafi eitthvað sæmilega merkilegt fram að færa. Mér fannst flest ljóðin vera um fátt, ef þá nokkuð. Hann yrkir aðeins um að hann mætti drekka minna, og aðeins um ástina, aðeins um fjölskylduna, og eitt og annað um hitt og þetta, án þess að margt af því hafi snert við mér.


 


Einhvern veginn bara „margt í mörgu, og víða pottur brotinn” án þess ég fyndi nokkurn tímann fyrir því að hér væri margt, og hvað þá að það væri brotið. Nú ætla ég ekki að falla í þá gryfju að fara að hnýta í naflaskoðun skálda, enda sýnir reynslan okkur (Ginsberg, Bukowski, Þórbergur Þórðarson, Haukur Már Helgason, o.s.frv.) að slíkt getur heppnast mjög vel, ef naflaskoðunin er nógu skemmtileg, nógu frjó, nógu róttæk og nógu kímin. Vandamálið virðist mér frekar felast í því að Kristian skoðar í sjálfum sér hið almenna, án þess að nota til þess tilþrifamikið mál eða frjóar ljóðmyndir, og það er skilgreiningaratriði að slíkt getur ekki orðið áhugavert.„og þú ert þreyttur piparsveinn” (Sinfónía #9, bls. 15)„í dögun nem ég anda lífsins – ofurtæran hljóm” (Einsog Lennon, bls. 7) 


Svo eru ástarljóðapælingar á víð og dreif. 9 erinda hækuljóð til einhverrar Særúnar. Allt haganlega gert, og einstaka ljóð sem snertir við manni. Eins og Andlit, Bókaormur, Kvöld, Máni, Selskinn, Lykt, Játning.
 


ég sat í djeilinu í amsterdam – sagði hann allt í einu við mig einsog uppúr þurru            ég var tíður gestur í raftækjabúðinni og þessi vingjarnlegi sölumaður ætlaði ef til vill að útvega mér vinnu þar sem eigandinn var móðurbróðir hans            það var fyrir lsd – bætti hann svo varfærnislega við            undanfarnar vikur höfðum við verið að heyja langt skákeinvígi og var farið að sjá fyrir endann á spennandi orrustu            þvínæst spurði hann – líst þér eitthvað illa á það            ég átti leik

Þetta finnst mér skemmtilega frumleg rödd. Boðskapurinn út af fyrir sig óræður, en það truflar ekki endilega, því frumlegar raddir eru sjaldgæfari en hvítar krákur. En svo má vel vera að þetta sé kópía af einhverju sem ég hef ekki lesið.
 


Eins og gengur og gerist í íslenskum ljóðabransa er það samt minnihluti ljóðanna sem hreyfir við manni. Og ég held það megi hreinlega rekja það til þessarar fagurfræði sem upphefur skáldin, gerir þau einhvernveginn að boðberum „fegurðarinnar”, án þess að skeytt sé um hvað þau fegra. Ljóðlist verður oft að einhverskonar fagurfræði fagurfræðinnar vegna, og lítið skeytt um hvað hún tjáir – og innan þess geira, er Ígull bara fjári fín ljóðabók. Útgefandi er Deus.Hver er það sem gefur umsögn:

Eiríkur Örn Norðdahl, 2003