19. ágúst 2018
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Náttglöpin eftir Bjarna Bernharð


Í heildina er bókin alls ekki gallalaus, en þó vel lesturs virði, áhugaverð og víða skemmtileg, þrátt fyrir einhvern rembing og tilgerðarbrag.


Bjarni Bernharður hefur verið að skrifa og mála ansi lengi. Því miður er ekki tiltekið í bókarkápu hvað hann hefur gefið út margar bækur í gegnum tíðina, eða haldið margar sýningar, en ég tel mig þó vita að hann hafi verið að í eitthvað rúmlega 20 ár. Náttglöpin heitir hans nýjasta bók, sem kemur í kjölfarið á bókinni Spor mín og vængir frá árinu 2002, en þær koma báðar út hjá útgáfunni Deus.

 

Náttglöpin er hippabók um geðbilun, svartnætti og bjartsýni, allt í senn. Ljóðmælandi saknar greinilega hippatímabilsins þónokkuð, og í bókinni er eins og það tímabil þjóni hlutverki bernskunnar: tíma sakleysis, tímanum áður en heimur svartnættisins tekur yfir.

 

Inn í rjóðri hippans, þar sem blóm

fellur í döggvota jörð

vaxa litirnir á vortrjánum.

 

Regnboginn tónar fléttuna.

 

(úr Ljóð bls.12)

 

Bjarni skilur sig þó frá týpísku ´68 kynslóðarfólki með því að það er ekki að finna hjá honum þann sjálfbirgingshátt að hipparnir hafi breytt heiminum. Týpísk ´68 manneskja lítur svo á að heimurinn hafi breyst með tilkomu þeirra (þess vegna gerir hún í sífellu tilkall til þess að stjórna heiminum). Hjá Bjarna lýkur hippatímabilinu, og við tekur heimur ógæfu og geðsjúkdóma, Bjarni gerir ekkert tilkall til samtímans.

 

Í áratugi

klæddist ég ræfilsfrakka

og hattbeyglu.

 

[...]

 

Kardó og kogari

voru lífsnautn mín.

Og næturstað

átti ég víðsvegar

við lítið skjól.

 

(úr Róninn bls. 42)

 

Ljóðmælanda er tíðrætt um ógæfu drykkjunnar, og er að einhverju leyti kortlagning á því hvernig hlutirnir fara úrskeiðis, þar sem ferðalagið liggur frá notalegri hassvímu og rauðvíni (Stjörnukortin, bls. 16) yfir til drykkjuógæfunnar hér fyrir ofan, sem leiðir til geðbilunar:

 

Náttglöpin

færðu mér reisupassann

að fordyri því

er eigi skyldi nefna.

 

Þar dvaldist ég um hríð

við dægradvöl og glens,

 

En nætursvallið

í niðheimum

varð endasleppt.

 

(úr Náttglöpin, bls. 21)

 

Lengst gengur ógæfan að dauða, eða jafnvel morði?

 

Það ár

hafði ég vetursetu

á brjálaðri plánetu.

 

Dauðinn

var félagi minn.

 

(Anno 1986, bls.32)

 

Þó er ljóst að við enda ganganna var/er ljós, og víða sjást sólargeislar brjótast fram úr svartnættinu:

 

Þegar hugur minn reikar

að hinni helgu gröf

minningunni.

Sé ég tvö undurfögur blóm

sem bera rætur sínar

í skugganum.

 

(Blómin tvö, bls. 35)

 

Og lokalínurnar í titilljóðinu sem vitnað er í hér fyrir ofan:

 

Á örlítinn sálarglugga

fór að bregða fyrir birtu.

Af endurnýjuðum krafti

reis ég úr öskunni.

 

Bókin er að megninu til vel skrifuð. Bjarni skrifar vissulega, eins og segir á bókarkápu, „ríkt myndmál”. En stundum virðist þó eins og hann sé að gangast upp í því hlutverki að skrifa „ríkt myndmál”, og innihald, aðstæður, lykt, snerting, hitastig og bragð, öll greinileg ástönd missi marks, eða hreinlega hverfi, eins og í fyrsta ljóðinu:

 

Fögur er tjörnin spegilslétt. Þar sem gulgrænt

sefið vex bærist hugur okkar beggja.

Ég man bleikar varir þínar

og augun skær.

Næst þegar vorar skal ég hugsa til þín

á ferðum mínum um Rósagarðinn.

Þar sem við áttum okkur stund

í fallvöltum heimi

tvö ungmenni í háskalegu stræti

í gleðisnauðri leit.

 

(Minning, bls. 7)

 

Mér finnst þetta algerlega banalt. Kannski er það ég, en ég næ engum tengslum við þessa Minningu. Sef og skær augu og bleikar varir eru ekki myndir sem sitja fastar, þær hafa allar heyrst of oft áður. Hér skortir áþreifanlega áþreifanleika: hið sérstaka, það sem einkennir þessa tilteknu minningu. Vantar allan kraft, eins og Bjarni lýsir því sjálfur í einhverslags uppgjöf:

 

Einsog höggmynd

í speglasal

er erfitt að kenna kraft

í skapandi ljóði.

 

(Á tímaplani, bls. 15)

 

Hér á reyndar sögnin ‘kenna’ að lesast svo að enginn geti lært að setja kraft í skapandi ljóð, en freistandi er að lesa hana svo að erfitt sé að finna kraft í skapandi ljóðum. Sérstaklega á tímum þar sem abstraktið nær oft yfirhöndinni yfir merkingunni, sem fær að fara til andskotans í orðatildri höfundarins.

 

Víða nær Bjarni þó skemmtilegu flugi í myndríki, eins og í uppáhaldsljóðinu mínu í bókinni:

 

Bekkurinn er of langur. Mosagróinn og fullsetinn

illfygli. Jón Reyni vantar hænuprik og öxina

Rimmugýgi.

 

(Bekkurinn, bls. 25)

 

(reyndar er þetta ljóð skrifað á síðhippískum tímum, tímasett 1975)

 

Í heildina er bókin alls ekki gallalaus, en þó vel lesturs virði, áhugaverð og víða skemmtileg, þrátt fyrir einhvern rembing og tilgerðarbrag.

 

Bókin er 47 bls. Útgefandi er Deus, 2003.

 

 

 

 Hver er það sem gefur umsögn:

Eiríkur Örn Norðdahl, 2004