3. apríl 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Innbær-útland eftir Sigmund Erni Rúnarsson


Mjög full bók, of full af lýsingarorðum inn á milli, en í heildina nógu full af fallegri speki og kímnigáfu til að rísa yfir meðalmennskuna.


Að mestu er svipaður tónn sleginn í þessari ljóðabók og bók höfundar frá í fyrra, Sögur af aldri og efa. Sigmundur er gjarnan í frásagnarhlut- verki: hann virðir fyrir sér hlut, stað eða kennd og reynir að miðla henni til lesandans í orðum.
Það er einkum tvennt sem truflar þessar frásagnir öðru fremur: tilhneiging til að kalla hlutina alls ekki sínum réttu nöfnum, heldur ljá þeim ofurskáldlegan blæ, og tilhneiging til að reyna að segja sem allra minnst; þ.e. að skilja sem mest eftir fyrir lesandann að botna, oft með þeim afleiðingum að bæði merking ljóðsins fer fyrir ofan garð og neðan og stemmningin verður yfirdrifin.
Bæði þessi stílbrögð eru þó almennt talin góð og gild á ljóða- velli og mjög gjarnan notuð, en í of mörgum tilfellum í þessari bók fer Sigmundur Ernir yfir strikið. Dæmi um hið andstæða eru þó mörg, einna helst má nefna ljóðin Bratti, Maðurinn með hjartað, og Að vera.
Sigmundur Ernir nýtur sín allra best í ljóðum þar sem hann neglir báða fætur niður á jörðina og fleygir fram spökum persónu- legum kenningum án þess að blikna eða ljá þeim óþarfa búning. Gott dæmi um þetta má finna í ljóðinu Að fara:
... að fara er að skilja eftir hluta af sjálfum sér að fara er að stíga upp úr skrefinu ... (Bls. 61)
Ljóðið Að fæðast er sennilega sterkasta ljóð bókarinnar, en þar nær Sigmundur að sameina þetta tvennt: persónulega og skýra sýn í bland við fallega teiknaðar myndir:
... að fæðast er að ala af sér land eiginland hnoða sína fjörubreið móta sína herðubreið hefa sína jöklabreið og verða eiginland ... (Bls. 54)
Ekki hefur verið minnst einu orði á alla miðju bókarinnar, en þar má finna prósaljóð fjölmörg sem kennd eru við hinar ýmsu stórborgir. Einhverra hluta vegna ristu þær ekki mjög djúpt, en eru þó oftast skemmtilegar myndir, stundum frábærlega fyndnar, eins og í Lissabon II þar sem lýst er þvermóðsku þarlendra ekkja og þeim einna helst líkt við íslenskar beljur:
... Sjálf skjöldótta skapstyggðin... að stöðva mann á veginum að Vík og bremsuförin nísta. Þar sýna þær manni uppundir gumpinn og drulla í rólegum slöttum framanvið heitfráa bifreiðina. Ekki það að þær lyfti pilsunum í Lissabon, en mykjan er andleg. ... (Bls. 31)
Bókin er 74 bls. og útgefandi er JPV, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Davíð A. Stefánsson, 2002.