20. september 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Hjörturinn skiptir um dvalarstað eftir Ísak Harðarson


Maður undir himni yrkir af krafti.


Hjörturinn skiptir um dvalarstað. Ísak Harðarson hefur ekki gefið út ljóð í 7 ár og á þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það breytir samt ekki því að Ísak er eitt af stórskáldunum. Hann hefur skapað sér stíl sem gerir verk hans auðþekkjanleg og er sá stíll áberandi í þessari nýju bók og þá sérstaklega fyrri hluta hennar. Fyrri hluti bókarinnar ber heitið Óður um dádýrarjóður og virkar einsog ákveðið uppgjör við fyrri tímabil í lífi Ísaks, leit hans að lífstilgangi og því þegar hann fannst. Þetta má vel sjá í ljóðinu Brúin á enda næturinnar sem er mjög sterkt ljóð í anda Ísaks. Þessi leit að lífstilgangi hans hefur verið áberandi í bókum Ísaks hingað til, gefið þeim mikinn kraft og auðvelt hefur verið að hrífast með. Í síðari hluta bókarinnar, Hjörturinn skiptir um dvalarstað, er leitinni hinsvegar að ljúka eða er lokið og Ísak hefur fundið sér samastað. Í þessum hluta örlar enn í þann Ísak sem maður þekkir en oft á tíðum finnst manni einsog maður sé að lesa texta úr sjónvarpsstöðinni Omega, samanber í titilljóði bókarinnar sem hefst á þessum orðum:
Hér er gott að vera. Hér í húsi Drottins er gott að dvelja. Ég skelf af bæn! Návist þín gagntekur mig! Heilagur Andi þinn hríslast um mig allan eins og himneskt blóð sem veitir eilífu lífi þínu um dauða minn!
Síðari hluti bókarinnar höfðaði ekki eins sterkt til mín og sá fyrri en hann sýnir að Ísak er ekki staðnað skáld. Hann hefur nóg að yrkja um en um leið er einsog hann hafi ort sitt síðasta ljóð. Skáldið sem eitt sinn leitaði logandi ljósi, hefur fundið ljósið. Bókin er 74 bls. og útgefandi er Forlagið, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Björgvin Ívar, 2002.