3. apríl 2020
 

Notandi

Lykilorð


[ Gleymt lykilorð ]

Höfundar:
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Æ Þ Ö

©Notendur ljóð.is
 
Umsagnir

Vandkvæði eftir Stein K.


Ort af dirfsku og innsæi.


Það er synd og skömm, en sennilega koma margir til með að afskrifa þessa bók bara fyrir það hvernig kápan er leyst af hendi. Og ætla ég ekki að reyna að verja kápuna: hún er afar slæm. Og þeim mun meiri synd, því bókin er góð.
Upphafsljóð bókarinnar er, og oft er það þannig, besta ljóð hennar:
Lengi Lengi hefur ljóðið lónað á naglfari, legið suður á sundum, borið af vestanvindum, hrakið af austanöldum, norður að náköldum storðar ströndum. (Bls. 7)
Þarna nær Steinn að sameina sterkan takt og djúpa speki um ljóðið og stöðu þess. Hann segir margt í þessu ljóði um tilvistarangist ljóðsins, og að ákveðnu leyti, með því að opna sína eigin bók á þennan hátt, lýsir hann því yfir að hann ætli sér bragarbót á. Og svei mér þá: oft á tíðum tekst honum að vekja upp þá von!
Steinn hefur nefnilega óvenju sterka tilfinningu fyrir takti, rími og hljómi: eitthvað sem er afar sjaldgæft hjá yngri skáldum, og er af sumum talið óþarft í nútíma ljóðagerð. Stundum minnir kveð- skapur hans á ungan Þórarin Eldjárn, og ekki er þar leiðum að líkjast:
Eitthvað er á sveimi Eitthvað er á sveimi þar sem enginn maður sér. Eirðarlaust það suðar inní höfðinu á þér. Svo undarlega lítið og ógurlega smátt og ekkert færðu skilið í því á nokkurn hátt. ... (Bls. 33) Á milli Á milli mín og þess sem var og verður er vegurinn svo langur og svo mjór. ... (Bls 31)
Steinn er sem sagt að sýna takta sem alltof fáir sýna í dag: dirfsku í formi og líka í efnisvali, þar sem hann spáir mest í náttúruna og lífs- spekina, en ekki djammið og djúsið og malbikið eins og margir aðrir. Hann gæti sem sagt sumpart verið sjötugur bóndi úr Skagafirði, en er í raun innan við þrítugt, og því sennilega það sem kallað er gömul sál.
Í nokkrum ljóðum er eins og hafi verið farið af stað með góða hugmynd á þróttmiklum spretti en misst flugið undir lokin.
Á heildina litið er vel þess virði að fá að líta þessa bók. Hún er ekki mjög efnismikil: aðeins fimmtán ljóð, og með hverju ljóði er mynd- skreyting eftir höfund, sem hefði auðveldlega mátt sleppa því Steinn er miklu betra skáld en teiknari. Í þessari bók hans vantar oft aðeins örfínan herslumun í snilldina. Sú fínstilling verður vonandi komin í næstu bók. Bókin er 40. bls. og útgefandi er höfundur sjálfur, 2002.


Hver er það sem gefur umsögn:

Davíð A. Stefánsson, 2002.